ITS er ekki matarkúr heldur verkefni sem skilar árangri ef því er sinnt.

Macros-ferðalagið mitt hófst í lok febrúar, rúmum fimm mánuðum eftir fæðingu fjórða barns míns. Á þessum tíma var fjölskyldan búin að ganga í gegnum mikla erfiðleika og allt var einhvernveginn á haus og í ójafnvægi. Verandi mikið tilfinningaátvagl (e. emotional eater) fóru kvöldin í endalausar troðslur af allskonar óþarfa með tilheyrandi niðurrifi og vanlíðan. Okkur hjónum bauðst að stökkva inn á paranámskeið með dagsfyrirvara og því gafst ekki mikill tími til að hugsa. Ég skældi örlítið í koddann þetta kvöld þegar ég hugsaði með mér út í hvað við værum búin að koma okkur og hvort að þetta yrði það sem hrinti okkur endanlega fram af brúninni. Hvort við hefðum tíma fyrir þetta og gætum sinnt þessu og gefið þessu tækifæri eins og okkur dreymdi um.

Fyrsta vikan leið og við fundum bæði strax mun bæði á blóðsykrinum og vigtinni. Sykurlöngunin fauk mjög fljótlega út um gluggann og ég fann að sveiflum innan dagsins fækkaði og úlfatíminn varð auðveldari. Næstu vikur liðu síðan koll af kolli og við vorum sammála um að í rauninni væri þetta miklu minna mál en við hefðum gert okkur í hugarlund, sérstaklega afþví við vorum í þessu saman. Það var einmitt það sem gerði þetta ferðalag skemmtilegt – Að gera þetta saman! Verkefnin sem okkur var falið að leysa á leiðinni gerðu okkur nánari gáfu okkur dýrmætan tíma sem við annars hefðum líklega ekki gefið okkur.

Það dýrmætasta fyrir mig í þessu ferli var að fá þennan fasta ramma næringarefna sem ég hafði þó sjálf fulla stjórn á hvernig ég vildi nýta hvern dag. Að fá uppbyggjandi aðhald, stuðning og hrós. Þessar 8 vikur umbyltu minni andlegu líðan á þann hátt að ég náði fullkominni stjórn á tilfinningaátinu. Ég upplifði mikla sátt og innri frið við að vinna með þennan ramma og vita að hverju ég gekk dag eftir dag. Góðu spari-stundanna nutum við síðan enn betur fyrir vikið, verandi búin að skipuleggja þær fyrirfram og púsla þeim inn í daginn. Bónusinn við þetta allt saman var síðan að missa öll þau kíló sem ég óskaði mér að missa, öðlast meiri orku, byrja að hreyfa mig meira aftur og í raun komast á betri stað líkamlega en fyrir meðgöngu. Geggjaður bónus það! 🙂

Ég lít á þessar 8 vikur sem ákveðið upphaf og ég er mjög spennt fyrir framhaldinu. Ástæðan er sú að oftast í lífinu hef ég verið í góðu formi og æft mikið, en þó aldrei þegar ég hef virkilega tekið næringuna föstum tökum og hugsað það til enda hvað nákvæmlega líkaminn þarf til að ná betri árangri og endurheimt. Látum kafla 2 hefjast!

TAKK FYRIR MIG, ITS Macros <3 Að frátöldum tveimur septembermánuðum þar sem ég sneiddi hjá öllum vörum við viðbættum sykri þá hef ég aldrei tekið þátt í neinum tímabundnum verkefnum sem ganga útá að setja reglur um mataræði. Slík verkefni hafa einfaldlega aldrei höfðað til mín, mér hafa ýmist þótt þau óspennandi eða öfgakennd, en umfram allt hef ég ekki haft trú á því að slíkt eigi eftir að breyta venjum mínum til frambúðar til betri vegar. Hin jákvæða upplifun mín af ITS Macros hófst í raun löngu áður en ég hóf sjálfur þátttöku í þessu verkefni. Um leið og útskýrt var fyrir mér út á hvað þetta gengur þá þótti mér þetta einfaldlega rökrétt og fullkomlega laust við þær öfgar sem gjarnan einkenna svokalla matarkúra (höldum því til haga að ITS Macros er alls ekki matarkúr, heldur verkefni sem er allt annars eðlis). Aftur á móti átti ég von á því að þetta yrði erfitt á þann hátt að ég ætti eftir að finna til hungurs reglulega. Þessar áhyggjur reyndust með öllu óþarfar, því jafnvel þótt ég hafi neytt umtalsvert færri hitaeininga að jafnaði á dag miðað við mataræði mitt áður en ITS Macros verkefnið hófst, þá fann ég ekki til hungurs einn einasta dag þessar 8 vikur. Í upphafi verkefnisins setti ég mér nokkur markmið: (1) Að læra inn á daglega þörf mína fyrir hitaeiningar og næringarefnaflokkana þrjá þannig að ég geti skipulagt máltíðir mínar yfir daginn í samræmi við það, (2) Að öðlast tilfinningu fyrir næringarefnainnihaldi þeirra matvæla sem ég neyti reglulega til að vera betur meðvitaðri um það hvað ég set ofan í mig, (3) komast í betra líkamlegt form og (4) léttast um nokkur kíló. Það er engum ofsögum sagt að þetta námskeið hafi reynst mér afskaplega vel og ég náði svo sannarlega öllum þessum fjórum markmiðum sem ég taldi hér upp. Ég upplifði mun jafnari blóðsykur yfir daginn á meðan á þessu stóð, mun meiri orku síðari hluta dagsins og almennt betri líkamlegri líðan. ITS Macros hefur ekki einungis hjálpað mér núna tímabundið og komið mér á betri stað heldur en ég var á áður en verkefnið hófst, heldur tel ég að þessi reynsla muni nýtast mér til frambúðar til að temja mér betri og hollari matarvenjur. Ég verð að viðurkenna að ég hefði aldrei trúað því að mér myndi takast að léttast svona mikið og ná almennt svona góðum árangri við að bæta mína heilsu á einungis 8 vikum. Þá viðurkenni ég einnig að ég hélt að til að ná svona miklum árangri þyrfti ég með einhverju móti að leggja meira á mig heldur en ég hef raunverulega gert (þetta hljómar kannski eitthvað undarlega en er alveg dagsatt. Mér hefur bókstaflega þótt þetta vera ekkert mál, og þótt þessar stöðugu vigtanir tefji mann í eldamennsku og við matarborðið þá hefur það einhvern veginn truflað mig alveg afskaplega lítið). Til að taka þetta örstutt saman svona í lokin þá þykir mér þetta verkefni alveg hreint frábært. Ég tek hatt minn ofan fyrir Inga Torfa og Lindu og þeirra starfsfólki fyrir að setja fram og halda utan um þetta einstaklega fagmannlega verkefni sem núþegar hefur hjálpað þúsundum Íslendinga að ná betri tökum á heilsu sinni. Þrátt fyrir að ég ætli að prófa að standa á eigin fótum næstu vikurnar og sjá hvernig mér gengur að halda utan um mataræði mitt án þess að gera það innan ITS Macros verkefnisins þá eru klárlega meiri líkur en minni á að ég muni snúa aftur einn daginn til að skerpa á hlutunum. Aftur á móti verð ég gangandi auglýsing fyrir þetta frábæra verkefni sem ITS Macros er og mun mæla með því við hvern þann sem ég á eftir að ræða við um heilbrigt mataræði og líferni. Takk kærlega fyrir mig! Jan Eric Jessen og Máney Sveinsdóttir, Paranámskeið